Leikskólastarf

 • Leikurinn

  Á bernskuárum er leikurinn lífstjáning barns,  ríkjandi athöfn og mikilvægasta náms- og þroskaleið þess.  Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins, lífstjáning og gleðigjafi barns.  Frjáls og sjálfsprottinn leikur er hið eðlilega tjáningarform barns.  Í leik lærir barn margt sem enginn getur kennt því.

  Í leik felst því mikið sjálfsnám, honum fylgir bæði gaman og alvara.  Reynsla barns endurspeglast í leiknum.  Til þess að leikurinn geti þróast og eflst þarf barn upplifun, hugmyndaflug og efnivið.  Sjálfsprottinn leikur greinist frá öðru atferli á því að hann er skapandi og barnið stjórnar honum sjálft.  Í leik lærist börnunum nauðsyn þess að vinna saman og taka tillit hvert til annars. Í leik lærir barn samskiptareglur og  að virða rétt annarra. 

  Í Jöklaborg er lögð áhersla á að leikur barna fái viðeigandi tíma í skipulagi.  Leikurinn fer fram á  deild  barnsins, í vali eru börnin að leika á öðrum deildum en sinni eigin. Lögð er áhersla á að brjóta leikinn ekki um of  upp hjá börnunum. Starfsmenn eru meðvitaðir um mikilvægi leiksins og hvaða þýðingu hann hefur fyrir börnin.  Þeir eru oft þátttakendur í leik barnanna, þá á forsendum þeirra. 

 • Val

  Markmið vals er:

  • Að barnið fái tilbreytingu í leikaðstæðum.
  • Að barnið kynnist húsnæðinu og möguleikum þess.
  • Að barnið kynnist betur öðrum börnum og starfsfólki leikskólans.

  Hugmyndin með valkerfinu er að útbúa uppeldisumhverfi barnanna þannig að það örvi þau til dáða í þekkingarleit sinni.  Valkerfið byggist á því að efla sjálfstæði barnanna,  þau hafa ákvörðunarrétt varðandi  með hverjum þau vilja leika og starfa  og hvert þau fara innan leikskólans. 

  Valið felur í sér að barnið er í samfelldum frjálsum leik  á öðrum deildum en sinni eigin. Valið er tvo daga í viku fyrir hádegi á fimmtudegi og eftir hádegi á föstudegi í eina klukkustund í senn. Hvert barn getur valið um fjórar deildir ásamt Listasmiðju. Starfsmenn deilda eru á sínum deildum en skipst er á að vera í Listasmiðju. Valstund er á  hverri deild í upphafi valsins. Börnin sitja þá saman í tíu til fimmtán mínútur og velja það svæði sem þau vilja fara á. Að valstund lokinni fara börnin í ,,val-lest" um húsið með ,,lestarmiða" sem er í sömu litum og auðkennir deildina sem þau völdu. Börnin fara úr lestinni þegar hún fer framhjá þeirri deild sem barnið valdi, þannig er augljóst hvert barnið valdi og auðvelt að hjálpa barninu að muna hvert það valdi  og hvar það fer út úr lestinni.  Þegar á valsvæðið er komið setjast börn og starfsfólk saman og ræða.  Hvað heiti ég?  Á hvaða deild er ég?  Hvað vil ég gera?  Í lok valsins safnast börnin saman, fá lestarmiða og lestin fer aftur af stað og tekur börnin með í lestina þar til komið er á deild viðkomandi barns og þá fara þau úr lestinni.  Val barnanna er skráð inni á viðkomandi deild og  þannig er auðvelt að fylgjast með hvert þau velja hverju sinni og hver þróunin í vali þeirra er.  Valið er fyrir börn á aldrinum 3-6 ára.

 • Hópastarf

  Ein af leiðum leikskólans til að ná settum markmiðum er að hafa hópastarf fyrir öll börn leikskólans.  Í hópastarfinu er lögð áhersla á að vinna markvisst með öll námssvið leikskólans.  Horft er til rannsókna sem segja að barn fái bestu þróunar/þroska  möguleika í hóp ef um stöðuleika sé að ræða og  að barn eigi best með að læra hjá þeim kennara sem það er í nánustu tengslum við. Með þetta í huga er reynt að sjá út hópinn strax að hausti þ.e. börn og starfsmenn þannig að sami hópurinn sé saman allt skólaárið.  Hópastarfið stendur yfir í mislangan tíma og fer það eftir aldri barnanna. Áætlað er að hópastarf byrji í september ár hvert og ljúki síðan fyrstu vikuna í maí. Oftlega samtvinnast námsþættir í Hópastarfinu eins og tónlist, hreyfing,  listsköpun og lífsleikni.

  Markmið hópastarfs eru:

  • Að efla félagsfærni barnsins.
  • Að efla færni barnsins til að geta tekið tillit til og virt skoðanir og verk annarra.
  • Að örva sköpun og virkni barnsins.
  • Að efla einbeitingu og úthald barnsins.
  • Að barnið læri að tileinka sér sjálfstæð vinnubrögð.
  • Að okkur líði vel og að við höfum gleði og ánægju af því að vera saman.
  • Að börnin læri að hjálpa hvert öðru.
  • Að börnin læri hin ýmsu hugtök t.d. tengd stærðfræði, lesskilningi og því sem fangar huga þeirra í vinnu sinni með mismunandi efnivið.
  • Efla  jákvæða sjálfsmynd
  • Að búa barninu lærdómsrík og örvandi leik-  og námskilyrði sem vekja rannsóknar- og fróðleiksfýsn þess og hvetur það til að afla sér          þekkingar að eigin frumkvæði.

  Leiðir:

  • Að  sami  hópurinn sé saman allt skólaárið.
  • Að nota heimspekilegar vangaveltur og spurningar.
  • Að skapa hverjum hóp möguleika á að fara sínar eigin leiðir þar sem tillit er tekið til hugmynda, upplifunar og rannsókna barnanna.
  • Að nota vettvangsferðir sem vettvang náms.
  • Að nota „opnar spurningar"  hvað? - hvernig? - hvers vegna?            
  • Að nota   „getur þú"  spurningar til hvatningar.
  • Að nota hugmyndafræði uppgötvunarnáms þar sem stöðugt eru lagðar fram spurningar til að hvetja barnið áfram í þekkingarleit sinni.
  • Að nota Könnunaraðferðina sem skapandi leið í námi elstu barna.
  • Að hvert barn segir frá sínu verki eða upplifun og hinir hlusta á. 
 • Hópastarf elstu barna

  Hópastarf elstu barna felur í sér vikulegar  stundir í Hópastarfi,  Hreyfistund, Leikjastund og Verkefnastund. Hópastarf elstu barna hefst og lýkur með formlegum hætti í sal þar sem foreldrum/ aðstandendum er boðið að koma og vera með á þeim tímamótum.  Í stundum sem heita Hópastarf er unnið með almenna færni barnsins s.s. til samskipta, undirbúningur fyrir læsi, ritunar, stærðfræði, og listsköpun er stór þáttur stundarinnar.
 • Leikjastund

  Öll elstu börn leikskólans fara saman í leikjastund í sal einu sinni í viku ásamt hópstjórum þeirra og leikskólasérkennurum.  Stundin er í 30-40 mín í senn.  Farið er í skipulagða hreyfi- og söngleiki þar sem m.a. notuð er handbókin og geisladiskurinn  „Dansar og hreyfileikir fyrir leikskólabörn" eftir Kolfinnu Sigurvinsdóttir og Huldu Sverrisdóttur.          Markmið Leikjastunda er að efla félagsfærni barna, þ.e:

  • Að börnin læri að vera í stærri hóp og kynntist hvert öðru.
  • Að börnin læri að taka tillit til hvors annars.
  • Að börnin læri að viðurkenna hvort annað.
  • Að efla samskipti barnanna.
  • Að kenna börnunum að fara eftir fyrirmælum og reglum.
  • Að börnin finni til gleði og ánægju. gleðjast saman

  Leiðir: Skipulagðir hreyfi- og söngleikir

 • Hljóm 2

  Í Jöklaborg er tekið  Hljóm-2 próf af öllum börnum í elsta árgangi leikskólans. Hljóm-2 er próf í leikjaformi sem notað er til að kanna hljóðkerfisvitund elstu barna leikskólans.  Megintilgangur notkunar á Hljóm-2 er að finna börn í áhættu fyrir síðari lestrarerfiðleika.  Góður málþroski þ.á.m. góð hljóðkerfisvitund, eykur líkur á farsælu lestrarnámi.  Ljóst er að undirbúningur fyrir lestrarnám hefst meðan barn er enn mjög ungt og löngu áður en eiginlegt lestrarnám hefst.  Hægt er með fyrirbyggjandi aðgerðum að fækka þeim börnum sem lenda í lestrarerfiðleikum.  Sýnt hefur verið fram á náið samband milli hljóðkerfisvitundar og lestrar í fjölmörgum rannsóknum.  Eingöngu þeir leikskólakennariar sem hafa  farið á  sérstakt námskeið í að taka  Hljóm-2 próf   gera það.

 • Hópastarf yngri barna

  Hópastarf yngri barna hefst í september ár hvert og lýkur á formlegan hátt í maí í sal leikskólans  án þátttöku foreldra.  Hópastarf barna þriggja til fjögurra ára felur einnig í sér Hreyfistundir. Unnið er með samskipti barna, málörvun, ýmis einbeitingarverkefni,  listsköpun þar sem ýmis efniviður til listsköpunar er kynntur og notaður.
 • Hópastarf yngstu barna

  Hópastarf yngstu barna þ.e. barna á  Heimahlíð og Heimahöll samanstendur af stundum sem heita Hópastarf, Könnunarleikur og Hreyfistund. Unnið er með þema  "Ég sjálfur" sem er jafnframt  grunnþema í leikskólastarfinu.

 • Hreyfistundir

  Markmið Hreyfistunda er:

  • Að efla hreyfifærni barnanna og líkamsvitund bæði úti og inni.
  • Að auka snerpu og þol.
  • Að börn fái útrás fyrir spennu læri að slaka á, og finni fyrir gleðinni með því að hreyfa sig.
  • Að barnið lærir að átta sig á rými, fjarlægðum og áttum.
  • Að auka getu barna og samhæfingu líkamshluta.
  • Að auka fín-og grófhreyfingar.
  • Að auka gleði, vellíðan.
  • Að auka hugtakaskilning og rúmskynjun.
  • Að barnið læri að taka tillit til og virða aðra í hópnum.

  Hreyfistund er leið leikskólans að þeim markmiðun er lítur að heilsu, hreyfingu, snerpu og þoli  barna. Öll börn leikskólans fara í Hreyfistund í sal einu sinni í viku. Salnum er skipt milli deilda þannig að hver deild hefur afnot af honum einn dag í viku. Í  Hreyfistund er markvisst unnið  með þá þætti er  lúta að hreyfifærni barna og líkamsvitund.

 • Þema

  Í Jöklaborg er unnið með ákveðið efni eða þema ár hvert.  Efnið  "Ég sjálf/ur" er  þema sem ávallt er unnið með í leikskólanum með öllum börnum þó sérstaklega  tekið vel fyrir á yngstu barna deildum.  Efnisval á öðru þemaefni ákveður starfsmannahópurinn sameiginlega og getur farið eftir þeim áherslum sem verið er að vinna að í leikskólanum og er unnið í skemmri eða lengri tíma, það getur þróast eftir áhuga sem kemur í starfinu hverju sinni.  Þemað á að koma fram í öllu starfi leikskólans.

 • Vikuskipulag

  Vikuskipulag er gert fyrir hverja deild þar sem fram kemur skipulag hvers dags vikunnar.  Þar kemur fram hvenær leikskólinn opnar og lokar, hvenær hver þáttur starfsins er yfir daginn.
 • Daglegt líf í leikskólanum

  Daglegt líf í leikskólanum einkennist af skipulögðum föstum athöfnum og er áhersla lögð á að örva alla þroskaþætti barnsins þar.

 • Hvíldarstund

  Öllum börnum er nauðsynlegt að hvílast.  Hvíldartími er skipulagður miðað við þarfir hvers barns, meðan sumir þurfa svefn, fá aðrir rólega stund þar sem hlustað er á sögur, ævintýri eða tónlist.
 • Samverustund

  Samverustund er tvisvar á dag, fyrir hádegismat og fyrir síðdegishressingu, þar koma öll börn og starfsmenn á deildinni saman, syngja saman, syngja hvert fyrir annað, ræða hvort allir séu mættir. Ef eitthvað kemur upp í hópnum er það rætt, lesið er um ferðabangsann.  Hver var með hann?  Hver fer með hann heim í dag?  Rætt er um ýmsa atburði t.d. ný leikföng hvernig beri að umgangast þau og hvar þau eru geymd. Þetta eru einskonar lífsleiknistundir.

 • Matmálstímar

  Í matmálstímum gefst oft gott tækifæri til að kenna og styrkja góða borðsiði. Þá er oft  góður tími til umræðna. Undirbúningur matmálstíma er mikilvægur er varðar hreinlæti og gefa þarf góðan tíma í hann ásamt frágangi. Lögð er áhersla á handþvott  fyrir mat.  Börnin fá þvottastykki til að þvo sér um andlit og hendur eftir mat. Notaðir eru smekkir fyrir börn sem þess þurfa.  Lögð er áhersla á að börnin taki virkan þátt í undirbúningi matmálstíma. Umsjónarmenn þ.e. eitt barn frá hverju borði á deildinni er umsjónarmaður.  Hlutverk umsjónarmanns er að sækja matarvagninn og leggja á borð með aðstoð fullorðinna og bjóða öllum að gjöra svo vel þegar allt er tilbúið. Á meðan þessi vinna fer fram er gott að örva málþroska barna með að setja orð á athafnir. Hér gefst góður tími til að  nota "tákn með tali". Börn og starfsfólk eiga sitt fasta sæti til borðs og hinn fullorðni leiðir umræðu um matinn og hollustu hans og hvetur barnið til sjálfshjálpar, borða með hnífapörum, fá sér sjálft á diskinn, ganga frá eftir sig og smakka á öllum mat, tileinka sér hollar og fjölbreyttar matarvenjur.  Við matarborðið lærir barnið almennar kurteisisvenjur.  Lögð er áhersla á að borðhald sé rólegt með notalegum samræðum.  Sömu reglur gilda í hádegis- og morgunmatartíma svo og  síðdegishressingu.
 • Verkefnastundir

  Í  Verkefnastund er unnið með fínhreyfingar og einbeitingarverkefni. Einnig er unnið með málörvun , rím og hugtök.

 • Könnunarleikur

  Á deildum yngstu barna leikskólans, Heimahlíð, Heimalundi og Heimahöll er m.a. unnið með Könnunarleikinn eða ,,Heuristic play".  Í honum felst að börnin eru í litlum hópum að skoða, handfjatla og kanna hluti s.s. dósir, kökubox, eggjabakka, plastflöskur, köngla, lykla, keðjur og ýmislegt fleira. Börnin eru af eigin hvötum að kanna hlutina og gera tilraunir á þeim. Hlutverk starfsmanna er að vera til taks og fylgjast með án afskipta og gefa börnunum tækifæri til að uppgötva sjálf.